föstudagur, september 01, 2006

Þetta er að finna í færslu frá síðustu mánaðarmótum:

"mig langar í útilegu með foreldrum mínum og systkynum, mig langar að grilla með vinkonum mínum, mig langar í skyr og ab-mjólk, mig langar að setjast upp í bíl og keyra, mig langar að vera barnlaus í smá stund, mig langar að geta keypt ostasósu og venjulegt seríós."

Það varð ekkert úr útilegu þar sem allir eru meira og minna lasnir nema ég en að sjálfsögðu er ég búin að hitta alla og eyða með þeim mislöngum tíma. Í kvöld erum við snillingurinn boðin í grillveislu hjá vinkonum okkar, tvær hef ég hitt á kaffihúsi, þrjár borðuðu með mér humar á Stokkseyri og þrjár hitti ég í saumaklúbbi yfir súkkulaðiköku og Supernovu. Ég er bæði búin að borða skyr og ab-mjólk og hef verið á bíl síðan ég kom, það er reyndar ofmetið. Leibbalingurinn hefur aldeilis verið í félagsskap við aðra en mig en ég verð ekki alveg barnlaus fyrr en í janúar, Salómon (vinnuheiti) er nefnilega að verða ansi fyrirferðamikill. Ostasósuna og seríósið ætla ég að kaupa á morgun og hugsanlega fær fleira góðgæti að fljóta með. Að auki leit ég fallegan, nýfæddan frænda augum og fór út með meira en ég kom með og hitti leikfélaga mína í Þorpinu. Við erum búin að gista á þremur stöðum og alls staðar erum við meðhöndluð eins og prinsessan á bauninni. Annað kvöld er ég boðin í afmæli hjá mági mínum og á sunnudag liggur leiðin heim á ný. Það sem uppúr stendur er hversu góða fjölskyldu og yndislega vini við eigum (væmni dagsins var í boði Lyfju).

Engin ummæli:

 
eXTReMe Tracker