þriðjudagur, júní 05, 2007

Efni draumanna segiði...

Margar nætur í röð hefur mig dreymt að ég standi í baráttu við ill öfl sem ætla sér að ná heimsyfirráðum. Geimverur, nornir, vampýrur og pólitíkusar eru aðal andstæðingar mínir og allt illþýðið notar heilaþvott til að telja fólk á sitt band. Oftast get ég flogið en aldrei mjög hátt. Alltaf er ég í ókunnu landi.

Það þarf svo sem engan sérfræðing til að segja mér að flutningar hafi þarna eitthvað að segja og ímyndunaraflið þarf ekki að vera mjög sterkt til að sjá að ég er ekki fullkomlega sátt. Ég bíð bara eftir að fá dótið mitt og geta farið að búa okkur aftur heimili, ég er í limbói núna og ég kann ekki við það. Þetta væri skömminni skárra ef veðrið væri skaplegt en því er ekki að heilsa þessa dagana.

Annars er það helst að frétta að ég keypti mér líkamsræktarkort í dag og réði einkaþjálfara til að koma mér af stað, ég kunni ekki við konuna sem ég sá bregða fyrir í spegli á laugardag, í hjarta mínu er ég tvítug mjóna.

Engin ummæli:

 
eXTReMe Tracker