laugardagur, september 27, 2003

Þar sem allir aðrir eru að blogga þá verð ég að gera það líka. Ég hugsa ekki sjálfstæða hugsun og þarf því að vera eins og allir hinir. Eins og allir vita sem þekkja mig þá er ég pennalatasta manneskja í heimi og það verður spennandi að sjá hvort ég sé jafn tölvuputtalöt.

Aðalástæðan fyrir þessu brölti mínu er samt sú að þeir bloggarar sem ég skoða reglulega eru ekki allir nógu duglegir og þess vegna verð ég að bæta úr þessu sjálf.

Tæknilega hliðin er mér lokuð bók en ég er að hugsa um að reyna að yfirvinna þessa fóbíu mína og er þetta því nokkurs konar sjálfshjálp. (er ekki annars í tísku að tala um fóbíur á bloggsíðum?)

Síðustu daga hef ég verið að rekast inn á bloggsíður hinna og þessa stórmenna og mér sýnist að allir verði að hafa fóbíur og spá obboslega mikið í pólitík og tala um bókmenntir. Ég er að verða fóbíulaus (m.a.s. geitungafóbían er að láta undan), ég er ekki viss um að ég nenni að tala eða spá í pólitík en kannski gæti ég bullað dáltið um bækur. Ég var t.d. að lesa eina í dag, hún heitir Gylting og fjallar um konu sem breytist í svín af því að karlarnir í kringum hana koma þannig fram við hana. Algjör snilld!

Merkilegt samt hvernig stórmennin ræða um bækur (örugglega flestir bókmenntafræðingar), það er sko ekki verið að tala um Ísfólkið eða Stephen King. Ég þori að veðja að þeir sem hafa lesið svona bækur fá ekki einu sinni inngöngu í bókmenntafræði. Nú er ég eflaust búin að baka mér óvild bókmenntafræðinga en það verður bara að hafa það. Það eru fleiri en bókmenntafræðingar sem lesa bækur og hafa skoðanir á þeim.

Váá... það mætti halda að ég hefði eitthvað á móti bókmenntafræðingum. Ég veit ekki alveg hvaðan þetta kom en það er algjör óþarfi að taka nokkurt mark á þessu.

Engin ummæli:

 
eXTReMe Tracker