sunnudagur, febrúar 15, 2004

Ég er farin að líta á sjálfa mig sem tveggja barna móður. Þannig er mál með vexti að sonur minn á ákaflega góða vinkonu og eyða þau öllum stundum í félagskap hvors annars, hvort sem er í leikskólanum eða frítímanum. Vinkonan býr í næsta húsi og því er ekki langt á milli þeirra.
Í dag hringdi Dísin í mig og spurði hvort ég væri að gera eitthvað sérstakt. Ég svaraði:
"Nei, bara hangsa. Krakkarnir eru hinu megin."
Ég er semsagt hætt að hugsa um son minn í eintölu og farin að tala um krakkana! Þess má geta að vinkonan sefur nú vært við hlið sonarins, við fengum hana lánaða þar sem foreldrum hennar var boðið í mat. Þegar pabbinn kom til að segja bless við hana, stökk sonur minn til og heimtaði líka knús í kveðjuskyni og sagði svo:
"Mamma og pabbi eru best... og líka þið!"
Ætli honum sé eins farið og mér (nema að í mínu tilviki hefur börnunum fjölgað), að hann eigi tvö pör af foreldrum? Það kæmi mér ekki á óvart.

Engin ummæli:

 
eXTReMe Tracker