föstudagur, febrúar 13, 2004

Vegna athugasemdar við síðustu færslu þá ætla ég að skrifa hér stuttan pistil til svars.

Já við vorum að kaupa og gera upp íbúð... fyrir fimm árum.

Efir extreme meikóver á íbúðinni fengum við nett ógeð á frekari framkvæmdum og létum nokkur smáatriði vera af þeim sökum. Þegar okkur fæddist svo sonur, voru allar að- og viðgerðir settar í bið, nema þær sem lutu beinlínis að öryggi erfingjans. Það verður að taka fram að íbúðin okkar er u.þ.b. 75 fm og eftir því sem barninu áskotnaðist aldur og meira dót þá minnkaði plássið.
Einu sinni átti ég skrifborð og bjó það í barnaherberginu en þegar kom að því að drengurinn flutti í sérherbergi var skrifborðinu fleygt því að hvergi var pláss fyrir það. Þegar lærdómurinn krafðist þess, skrifaði ég á tölvuna sem var troðið inn í eina lausa hornið í hjónaherberginu en allar heimildir sem ég þurfti, lágu á víð og dreif um hjónarúmið. Öllu þessu skólabrölti fylgir ótrúlegt magn pappírs og bóka og síðustu misseri hef ég kvartað óspart yfir geymsluleysi vegna þessa.
Fyrir rúmlega tveimur vikum fór bóndinn að minnast á að gera smávægilegar úrbætur en ég hamraði járnið á meðan það var heitt og gabbaði hann til þess að víkka úrbæturnar út og plássið um leið. Nú er svo komið að það er eins og aukaherbergi hafi bæst við því að geymslupláss hefur aukist til muna (ekki síst vegna þess að við erum búin að henda mörgum ruslapokum af alls kyns ónauðsynlegu drasli). Ljósakróna í eldhúsið er komin í hús en enn á eftir að festa hana upp og verður það væntanlega gert um helgina. Það skal tekið fram að fjárútlát vegna þessara breytinga hafa ekki skriðið yfir þrjátíuþúsundkallinn og því er þetta mun ódýrara en að skipta um íbúð til að græða aukaherbergi. Svo er bara að sjá hvort mér takist að knýja á um að baðherbergið fái lýtaaðgerð (a la Ruth) og að íbúðin verði máluð í kjölfarið.

Engin ummæli:

 
eXTReMe Tracker