miðvikudagur, maí 18, 2005

Ég var víst búin að lofa að fara yfir niðurstöður úr prófinu en það verður ekki sérstaklega merkileg yfirferð þar sem ég var svo ruslpóstshrædd að ég gaf ekki upp rétt netfang þegar ég smíðaði prófið. Doppfrid hefur gefið sig fram en Brandur ekki og reyndar hafa fleiri dularfullir karakterar bæst í hópinn s.s. ali (þó ég hafi nú grun um uppruna hans), J-dis, asdfadsf, Tp (held samt að það skýri sig sjálft) og loks gimmó. Gaman væri að heyra meira um ykkur, aðra held ég að ég þekki en það er að sjálfsögðu alltaf gaman að heyra um ykkur líka.
Here goes:

1. Ég á eitt gæludýr, það er kisulóra sem var einhvern tíma skírð Aþena en gengur undir og hlýðir nafninu Kisa.

2. Ég er 158 á hæð og það venst alveg ágætlega skal ég segja ykkur.

3. Ég var líklega 18 ára þegar ég gerðist áskrifandi að kiljum frá Ugluklúbbnum, ég fékk að gjöf einhverjar 10 bækur við inngöngu og þeirra á meðal var ein sem heillaði mig svo að ég hef ekki enn lesið jafn góða bók, þetta var Meistarinn og Margaríta eftir Mikhaíl Búlgakov.

4. Það er stutt síðan ég sagði frá fyrstu kynnunum af War of the Worlds og ást minni á því verki í öllum myndum. Þess vegna sleppi ég því núna.

5. Ég hef aldrei lært ensku í háskóla.

6. Í júlí verðum við eiginmaðurinn búin að vera saman í níu ár, never a dull moment... eða mjög sjaldan a.m.k.

7. Ég hef bara einu sinni farið á stóra tónleika með heimsfrægri hljómsveit. Það var í Kaupmannahöfn í júní 1995, sveitin var The Rolling Stones og þið getið kannski ímyndað ykkur gleði mína þegar risafígúrur úr uppáhaldsbókinni minni blésu upp á sviðinu.

8. Ég hef gaman af ANTM Púnktur!

9. Mig hefur alltaf langað að sitja á kaffihúsi á bökkum Signu, drekka rauðvín og lesa góða bók. Enn á ég það eftir en það hlýtur að styttast í það.

10. Ég var níu ára þegar ég stóð upp á rafmagnskassa í fljúgandi hálku og sleipum pæjustígvélum og beið eftir skólastrætó. Þegar vagninn birtist ætlaði ég að stökkva niður en það tókst ekki betur en svo að hausinn fór á undan og þegar ég bar fyrir mig höndina til að verjast höfuðhöggi þá brotnaði hún.


Verst þykir mér að geta ekki séð hverju þið svöruðuð og hneykslast á eða dáðst að svörum ykkar. Man það næst.

Engin ummæli:

 
eXTReMe Tracker