laugardagur, júní 11, 2005

Jæja, ég lifði fyrstu vikuna af.

Í kommentakerfinu eru uppi vangaveltur um hvað og hvers vegna Þorp Satans er. Í u.þ.b. hálftíma fjarlægð frá höfuðborginni er lítið sjávarþorp sem heitir Þorlákshöfn og þangað er ég að flytja með allt mitt slekti eftir nokkra daga. Þessir flutningar leggjast bara ágætlega í mig og ég lofa því að það er algerlega af fúsum og frjálsum vilja sem ég yfirgef höfuðborgarsvæðið. Þeir sem vilja fræðast betur um þetta er bent á að skoða færslu frá 18. mars 2005.

Eitthvað verð ég að hafa mér til dundurs þarna í Sataníu svo ég tók að mér að kenna börnum að leika sér í fáeina tíma á dag. Þetta er vissulega töluverð áskorun því að mitt eigið eintak er frekar meðfærilegt og ég er ekki alltaf viss um hvort ég hafi sérlega gaman af börnum. Eða jú. Kannski. Veit ekki. Ég þarf a.m.k. að sigrast á ýmsu hjá sjálfri mér til að þetta gangi upp og það er bara gott. Ég þarf líka að tala rosa hátt, stundum, það er svolítið erfitt því að ég er ennþá alltaf með hor og hæsi, líklega frjóofnæmi.

Nú sit ég heima í Hafnarfirði og er að reyna að mana mig í að byrja að pakka. Mér finnst það pínu súrt því að mér líður vel hér og saga litlu fjölskyldunnar er nátengd íbúðinni; fyrsta íbúðin, fyrsta barnið, fyrstu kettlingarnir, fyrsta hjónabandið o.s.frv. Ég vona bara að það verði ekki taka tvö á öllu þótt við séum að kaupa okkur húsnæði í annað sinn.

Engin ummæli:

 
eXTReMe Tracker