laugardagur, febrúar 10, 2007

Ungabörn eru svo sem ekki þekkt fyrir að þegja þegar þau eru óánægð en litli björn er samt með þeim skapstærri sem ég hef hitt. Mamma hélt að hann væri stórslasaður þegar hann lá á skiptiborðinu eitt kvöldið í vikunni, hún hafði aldrei séð annað eins. Skapið náði samt nýjum hæðum rétt í þessu þegar drengurinn varð svo öskuvondur yfir því að fá ekki að liggja á brjósti þegar hann langaði, ég get svarið að barnið varð dökkfjólublátt í framan og það ískraði all svakalega í því. Um leið og snáðinn fékk sínu framgengt varð litarhaftið eðlilegt á ný og ískrið stoppaði eins og einhver hafi slökkt á því. Á heimilinu bjuggu þrír ákaflega þrjóskir einstaklingar, nú hefur sá fjórði bæst við og virðist ekkert ætla að gefa okkur hinum eftir. Hér má búast við fjörlegum skoðanaskiptum næstu árin.

Engin ummæli:

 
eXTReMe Tracker