miðvikudagur, október 31, 2007

Vopn og draumfarir

Af hverju í andskotanum sækist illþýðið í að halda ráðstefnur á Íslandi? Næst verða það eiturlyfjabarónar sem tilkynna komu sína. Heimur versnandi fer.

Mig dreymir stundum að ég sé í Englandi. Stundum er ég að ferðast um landið í lestum og stundum er eyði ég tímanum í verslunum. Í nótt var ég rekin út úr stærstu verslunarmiðstöð landsins fyrir ókurteisi. Vonandi er ég ekki mjög berdreymin því leið mín liggur einmitt þangað eftir tvær vikur eða svo. Merkilegt samt með þessa drauma, yfirleitt er dreymir mig ekki raunverulegt umhverfi heldur eitthvað sem ég hef aldrei séð og iðulega birtist þetta draumalandslag mér aftur og aftur, ég er farin að rata ágætlega.

fimmtudagur, október 25, 2007

Nýjasta dótið...

er Canon EOS 350 D. Ég kann að sjálfsögðu ekkert á hana en ætla bara að fikta mig áfram og sjá hvort ég geti ekki tekið myndir af börnunum skammlaust. Nú er ég búin að mynda allt innanhúss og langar út að leika mér en það er bara þetta endalausa skítaveður sem gengur hér yfir. Yfirleitt er haustið yndislegur tími en nú er mér bara illt í sálinni. Skammdegisþunglyndi hvað.

þriðjudagur, október 16, 2007

Eru konur leikföng?

Yngsti maðurinn á heimilinu kveikti á sjónvarpinu og það vill svo til að skjár einn er að sýna tónlistarmyndbönd. Þegar ég var krakki mátti ég alls ekki missa af skonrokki eða hinum þáttunum öllum og langskemmtilegust voru myndböndin sem sögðu einhverja sögu eða gáfu nýja sýn á tónlistina. Það er enn skoðun mín. Iðnaðinum hefur farið mikið aftur og gerir sitt besta til að draga úr jafnrétti kynjanna, hálfnakið kvenfólk í tugatali falbýður sig mishuggulegum karlmönnum og virðist ekki þurfa að hafa neitt annað til brunns að bera en sexapíl. Er ekki kominn tími til að stöðva þetta? Er það forsvaranlegt að börnin okkar sjái þennan viðbjóð í sjónvarpinu um hábjartan dag?

miðvikudagur, október 10, 2007

þriðjudagur, október 09, 2007

Steini bróðir tók þessar





Friðarsúludagurinn mikli

er runninn upp en þar sem bróðurpartur heimilisfólks situr á salerninu verður einungis kveikt á kerti á baðherberginu. Friðarsúlutendrun mín bíður betri tíma. Ykkur sem ætluðuð að koma bendi ég á að skreppa út á Geldinganes eða í heimsókn til Steina bró, hann ætti að sjá súluna hennar Yoko ágætlega.

Góðar stundir.

föstudagur, október 05, 2007

Vinkona hans Steina

ætlar að reisa einhvern staur í Viðey í næstu viku og Íslenska ríkið borgar brúsann. Skattgreiðendur eru ekki á eitt sáttir hvort þar sé almannafé vel varið en ég sé ekki hvað við höfum betra við peningana að gera en að steypa stólpa á eyjum landsins.

Ég hef ákveðið að reisa mína eigin friðarstöng í garðinum hjá mér. Mun sú athöfn fara fram á sama tíma og frú Ono sviptir hulu af sinni. Í boði verða léttar veitingar, alveg fisléttar. Kranavatn og mjólkurkex. Allir þeir sem ekki fengu boðskort í bruðlið eru velkomnir.

þriðjudagur, október 02, 2007

Six pack

Ég, eins og svo margar aðrar konur, á í mestu vandræðum með að losna við aukakílóin sem hafa klesst sér utan á mig undanfarna 18 mánuði. Ekki er eingöngu hægt að kenna meðgöngu um því súkkulaði klístrar sér utan á maga, rass, læri og brjóst án þess að ég fái nokkuð við ráðið. Í sumar reyndi ég ræktina en það gekk bara ekkert of vel. Nú er það rope yoga. Fyrsti tíminn var í morgun og ég var næstum því vonsvikin þegar ég fór út, svitnaði ekkert og fann ekkert fyrir þessu nema þá helst í rófubeininu. Ég er búin að eyða deginum í að hugsa hvort ég eigi eitthvað að vera að púkka upp á þetta. Sem ég sit hér og horfi á Næturvaktina á youtube.com fer mig skyndilega að verkja í magann þegar ég hlæ. Ég er með strengi. Best að gefa þessu séns.
 
eXTReMe Tracker